Ríkissaksóknari segir að ekki hafi verið grundvöllur fyrir sérstakri rannsókn eða athugun á embætti sérstaks saksóknara vegna ábendinga sem bárust frá Jóni Óttari Ólafssyni og öðrum fyrrverandi starfsmanni embættisins. Þetta kemur fram í svari ríkissaksóknara vegna ásakana Jóns Óttars í viðtali í Fréttablaðinu um helgina.

Í viðtalinu sagði Jón Óttar að hann hafi látið ríkissaksóknara vita í greinargerð árið 2012 að embætti sérstaks saksóknara hafi stundað ólöglegar hlerarnir á símtölum verjenda við skjólstæðinga sína. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfestir í svari sínu að ábendingar um misfellur við meðferð rannsóknargagn hafi komið fram í greinargerðinni, en að þær samrýmist ekki að öllu leyti því sem fram komi í viðtalinu við Jón Óttar.

Þá segir í svari Sigríðar að hún hafi leitast við að koma á eftirliti með hlustunum og meðal annars krafið lögreglustjóra og sérstakan saksóknara um gögn og upplýsingar. Svörin frá sérstökum saksóknara hafi ekki gefið tilefni til að ætla að ekki hafi verið farið eftir ákvæðum laga. Ríkissaksóknari áréttar jafnframt að mikilvægt sé að ítrustu varúðar og vandvirkni sé gætt þegar þvingunarúrræðum eins og hlerunum sé beitt.