Hótelgeirinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu misseri eftir fordæmalaust blómaskeið áranna á undan. Ferðamönnum fækkaði um rúm 14% í fyrra, verð hótelgistingar hefur fallið um 6,6% frá hámarki sínu fyrir rúmu ári síðan og herbergjanýting hefur fallið um tæp 10 prósentustig í 65% frá hápunkti sínum á vormánuðum 2017. Þegar er farið að bera á rekstrarörðugleikum og jafnvel gjaldþrotum í greininni.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir samdráttinn hafa komið verst niður á hótelum í Reykjavík og á suðvesturhorninu. „Þau hafa átt erfiðara með að glíma við þessa fækkun í aðsókn. Við höfum verið að sjá verð falla meira þar en úti á landsbyggðinni,“ segir Jóhannes, og bendir á aukið framboð hótelherbergja þar í því sambandi, en von er á um 600 herbergjum á markaðinn þar á þessu ári.

Tækifæri í að auka neyslu á hvern ferðamann
Samhliða samdrætti á tekjuhliðinni hefur rekstrarkostnaður hótela aukist nokkuð síðustu misseri. Nýjustu tölur fyrir launahlutfall hótel- og veitingageirans eru frá 2018 en þá nam það um 40%, og hafði hækkað um hátt í 10 prósentustig á áratug. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir ljóst að launakostnaður hafi hækkað enn meira síðan þá.

Með launahlutfallið eins hátt og það er segir Ásdís verkefni ferðaþjónustunnar vera það að skapa aukin verðmæti sem byggja á minni ferðamannafjölgun. „Við þurfum að hugsa meira út frá verðmætasköpun og arðsemi greinarinnar, frekar en að treysta á meiri vöxt. Það eru talsverð tækifæri fólgin í því að auka verðmæti frá hverjum ferðamanni,“ segir hún, en Ísland er í 25. sæti í heiminum þegar kemur að neyslu á hvern ferðamann.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .