Verðbréfa- og fjárfestingasjóðir eru einn af hornsteinum þjóðarsparnaðar og ellilífeyris í öllum hagkerfum. Þær ákvarðanir sem sparifjáreigendur og almennir fjárfestar taka í ráðstöfun fjármagns til mismunandi sjóða hefur áhrif á fjármagnsframboð, vexti, framleiðni og hagvöxt í landinu.

Það eru gömul sannindi og ný að sparifjáreigendur hafa tilhneigingu til að eltast við hæstu ávöxtunartölur liðins árs þegar þeir fjárfesta í sjóðum. En ávöxtun í fortíð er hvorki trygging fyrir né ávísun á ávöxtun í framtíð. Það er algengur fyrirvari sem finna má í smáu letri í fréttum og auglýsingum innlendra rekstrarfélaga verðbréfa- og fjárfestingasjóða.

Fyrirvarinn er ekki ástæðulaus; það eru litlar sem engar haldbærar tölfræðilegar sannanir fyrir því að árangur í fortíð hafi forspárgildi fyrir framtíðarávöxtun. Eftir sem áður er algengt að rekstrarfélög sjóða auglýsi ávöxtunartölur þess sjóðs sem náði betri árangri heldur en markaðurinn og sambærilegir sjóðir, og að sparifjáreigendur eltist við þær tölur.

Það getur því verið áhugavert að skoða sögulega ársávöxtun mismunandi verðbréfa- og fjárfestingasjóða á Íslandi í innlendum eignaflokkum. Taflan hér að ofan sýnir nafnávöxtun þeirra fimm sjóða sem skiluðu hæstri ársávöxtun á tímabilinu 2014 til 2016. Prósentustigið sem kemur á undan sviganum sýnir ávöxtun þess árs, en prósentustigið í sviganum sýnir ávöxtun sjóðsins árið á eftir. Tilgangurinn með því er að varpa ljósi á það hvað það hefði haft upp á sig að eltast við þessar tölur.

Athygli vekur að af þeim fimm sjóðum sem skiluðu hæstri ávöxtun árið 2015 var enginn þeirra á sama lista árið á eftir. Reyndar komst enginn þeirra á lista yfir þá tíu sjóði sem skiluðu hæstri ávöxtun árið 2016. Til að bæta gráu ofan á svart skiluðu allir fimm hæstu sjóðirnir árið 2015 neikvæðri ávöxtun árið á eftir.