Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafnar þeirri söguskoðun að kreppan nú sé fyrst og fremst í ferðaþjónustunni og því sé frysting launa ekki að fara að búa til fleiri störf þar eins og forsvarsmenn launþegasamtaka hafa sagt, að því er Morgunblaðið greinir frá.

Í dag eða á morgun hefst atkvæðagreiðsla forsvarsmanna fyrirtækja um hvort segja eigi upp lífskjarasamningunum vegna forsendubrests að því er RÚV greinir frá, en Drífa Snædal framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins hefur hafnað málamiðlatillögum um frestun samningsbundinna launahækkana.

Drífa segir að sambandið hafi stutt ýmis úrræði stjórnvalda sem séu óháð kjarasamningunum. „Við vitum það að ferðaþjónustan er að taka höggið núna og launalækkanir eru ekki að fara að búa til fleiri störf þar. Að því leyti er þetta mjög sérstök kreppa,“ segir Drífa.

Halldór Benjamín segist ekki hafa fengið umræðu um neinar þær leiðir sem samtök atvinnulífsins hafi lagt fram til að leysa úr vandanum sem fyrirtæki landsins standi nú frammi fyrir.

„Í fyrsta lagi er þetta ekki kreppa sem er takmörkuð við ferðaþjónustuna. Það er rétt að áhrifin eru mest þar, en hennar gætir víðsvegar í atvinnulífinu,“ segir Halldór.

„Í könnunum meðal félagsmanna okkar kemur í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þeirra hefur orðið fyrir miklum áhrifum af kórónuveirunni. Þetta er því einhvers konar söguskoðun sem aldrei hefur komið fram á fundum ASÍ og SA og ég hafna alfarið.“

Í kynningu SA fyrir atkvæðagreiðsluna segir að tekjur atvinnulífsins verði 300 milljörðum króna lægri á næsta ári en áætlanir fyrir kjarasamningana gerðu ráð fyrir, en um 63% allra stjórnenda allra atvinnugreina sjá fram á tekjusamdrátt seinni hluta þessa árs samkvæmt meðfylgjandi niðurstöðum könnunar.

„Lítil sem engin innistæða er fyrir 45 milljarða króna launahækkunum við núverandi aðstæður,“ segir í kynningunni.