*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 18. október 2021 08:00

Ekki bein samkeppni við miðlunaröpp

Framkvæmdastjóri Fossa markaða segir síðasta ár hafa verið skrýtið en líflegt með miklum sveiflum á mörkuðum.

Júlíus Þór Halldórsson
Haraldur Þórðarson, framkvæmdastjóri Fossa markaða, segir miðlunarvettvanga á borð við snjallforrit sem bjóða upp á beina þátttöku á verðbréfamarkaði fyrst og fremst keppa hvert við annað.
Haraldur Guðjónsson

„Þetta var viðunandi ár hjá okkur þrátt fyrir að hafa verið litað af heimsfaraldrinum eins og hjá flestum,“ segir Haraldur Þórðarson, framkvæmdastjóri Fossa markaða, sem högnuðust um 177 milljónir króna í fyrra, samanborið við ríflega 300 árið áður.

„Eins skrýtið og síðasta ár var þá er þetta ár búið að vera líflegt. Það er búin að vera óttarleg gróska á ferðamálamörkuðum, og það er gaman að sjá aukna þátttöku einstaklinga á markaði, sérstaklega hlutabréfamarkaði. Fyrirtæki hafa einnig sýnt aukinn áhuga á að skrá fjármálagerninga á markað. Það má segja að það sé ákveðinn stígandi svona heilt yfir á markaði, sem hefur verið hressandi að fá í kjölfarið á annars mjög skrýtnu tímabili, sem 2020 sannarlega var.“

Aukinn áhugi almennings
Haraldur segir einsýnt að þátttaka og áhugi almennings á hlutabréfamarkaði muni halda áfram að aukast í kjölfar jarmbréfa-ævintýrisins vestanhafs og sögulegrar þátttöku Íslendinga í hlutafjárútboðum Icelandair og Íslandsbanka nýlega.

„Ekki spurning. Ég held að þetta komi bara til með að aukast. Þegar þú ert kominn með þetta aðgengi að mörkuðum beint í gegnum snjallforrit eða annað þá liggur það bara í hlutarins eðli að það mun á endanum auka áhuga.“

Hann telur slíka þjónustu þó ekki keppa beint við Fossa, sem vinna aðallega með fagfjárfestum. „Auðvitað kaupa almennir fjárfestar eitthvað í sjóðum og svona hjá okkur sem er óbein samkeppni, en hún er fyrst og fremst á milli þeirra sem bjóða upp á þessa beinu miðlunarþjónustu.“

Markaðurinn hér óskilvirkur
Haraldur segir hinsvegar að lykilatriði slíkrar þjónustu sé að ákveðin skilvirkni sé til staðar á viðkomandi markaði. Henni sé ekki endilega til að dreifa hér á landi.

„Stærstu verðbréfa- og gjaldeyrismarkaðir heims eru bara svo ótrúlega skilvirkir og djúpir að það er tiltölulega einfalt að bjóða upp á staðlaðan aðgang að þeim. Þegar þú ert kominn inn á smærri markaði þar sem seljanleikinn er miklu minni þá er ekki augljóst að svona lausnir gangi jafn vel.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.

Stikkorð: Markaðir Fossar