Landsvirkjun gerir ekki ráð fyrir að dregið verði á lán frá Evrópska fjárfestingarbankanum áður en niðurstaða um Icesave liggur fyrir. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjun, segir að enda þurfi þess ekki. Tilkynnt var um 70 milljóna evra lánasamning fjárfestinarbankans og Landsvirkjunar í dag.

Í lánasamningnum er ekki beinn fyrirvari um samþykkt Icesave-samninganna. Viðskiptablaðið greindi frá því síðasta sumar að Evrópski fjárfestingarbankinn lokaði á lán til Landsvirkjunar vegna þess að ekki hafði fengist botn í Icesave-deilunni. Í yfirstjórn fjárfestingarbankans sitja fjármálaráðherrar Evrópuríkjanna, þar á meðal fjármálaráðherrar Hollands og Bretlands.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun í dag kemur fram að í lánasamningnum er ákvæði um lágmarks lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Eins og fyrr segir tengist sá fyrirvari ekki beint Icesave.

Matsfyrirtækið Moody‘s sagði í svari við fyrirspurn Bloomberg febrúar sl. að það muni líklega lækka lánshæfiseinkunn Íslands ef Icesave-samningarnir verða felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekkert liggur þó fyrir um hvernig brugðist verður við niðurstöðunni.