Síðustu 12 mánuði hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 8,5%. Fjölbýli hækkaði um 10,3% og sérbýli um 3,0%. Kom þetta fram í erindi Ara Skúlasonar hjá hagfræðideild Landsbankans á ráðstefnu Landsbankans og Samtaka iðnaðarins um fasteignamarkaðinn sem haldin var í gær.

Ari Skúlason framkvæmdastjóri Landsvaka
Ari Skúlason framkvæmdastjóri Landsvaka

Að mati Ara eru nokkrir þættir sem þrengja að hefðbundnum fasteignamarkaði. Of lítið er að koma inn af nýjum íbúðum miðað við eftirspurnina og þá þörf sem hefur myndast. Fyrirtæki hafa verið að kaupa upp íbúðir til þess að leigja út sem þýðir að hluti íbúða hverfur úr hefðbundinni veltu. Eins hafa einstaklingar verið að leigja íbúðir til ferðamanna. Er til dæmis talið að skráð gistirými hafi tvöfaldast á milli 2014 og 2015. „Niðurstaðan er að framboðið annar ekki eftirspurn sem myndar þrýsting á verð upp á við,“ segir Ari í samtali við Viðskiptablaðið.

Engu að síður segir hann að ekki sé að merkja bólumyndun hvað fasteignaverð varðar. „Verð í nokkuð góðu samræmi við undirliggjandi þætti. Til dæmis hefur kaupmáttaraukning verið veruleg á síðustu misserum.“ Engu að síður hefur verið verulegur þrýstingur á verð til hækkunar.

„Í nóvember síðastliðnum spáði Hagfræðideild Landsbankans 8% árlegri hækkun fasteignaverðs næstu 3 ár. Litlar líkur eru á að hækkunin verði minni en við spáðum,“ sagði Ari á fundinum.