Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir að takist að kaupa verslanarekstur Woolworths verði þeim verslunum ekki breytt í Iceland-verslanir. Yfirtökuaðilar eru vongóðir um að hægt verði að ná samkomulagi um yfirtökuna.

Fjárfestahópurinn sem stendur að yfirtökutilboðinu saman stendur fyrst og fremst af Malcolm Walker og Baugi.

„Ekki er hægt að greina frá hverjir hinir smærri fjárfestar eru að svo stöddu,“ segir Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs.

Gunnar staðfestir þó að íranski fasteignamógúllinn Ardeshir Naghshineh, sem byggt hefur upp 10,2% hlut í Woolworths á síðustu vikum og mánuðum, sé ekki með í yfirtökutilboðinu.

Leiddar hafa verið líkur að því að helsta tækifærið sem felist í yfirtöku á verslunum Woolworths sé að breyta þeim í Iceland-verslanir. Gunnar segir engar áætlanir upp um það.

„Þetta gengur út á að vinna með Woolworths-vörumerkið.“

Víða pottur brotinn

Gunnar segir ýmis tækifæri fyrir hendi til að bæta rekstur Woolworths. Spurður hvort þær umbætur gætu mögulega falið í sér að fækka búðum, segir Gunnar svo ekki endilega vera.

„Ekki þarf annað en að ganga inn og skoða sig um í þessum búðum til að sjá að þar er víða pottur brotinn, til dæmis hvað varðar framsetningu og annað. Víða vantar vörur í hillur og salan er mjög árstíðabundin. Félagið er með talsverða veltu og við höfum miklar væntingar um að hægt sé að ná meiri arðsemi út úr rekstrinum.“

Gunnar segir öruggt að Woolworths verði kippt af markaði, náist samkomulag um yfirtökuna.

„Þegar félög eru skráð á markað eru hendur þeirra bundnar að mörgu leyti. Einnig er lykilatriði að setja stjórnendur inn í félagið sem hafa getu og tíma til þess að snúa rekstrinum við.“

Gunnar segist vongóður um að stjórnendur Woolworths vilji setjast að samningaborði um yfirtökuna.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hljóðaði yfirtökutilboðið upp á ríflega 50 milljónir punda, eða sem nemur tæplega átta milljörðum króna. Yfirtökutilboðið undanskildi síðan ýmsar skuldir Woolworths, ásamt lífeyrisskuldbindingum sem nema um 49 milljónum punda.