Að mati eiganda hjá Grant Thornton eru engin vafamál um að fyrirtækið hafi fylgt óhæðisreglum í hvívetna hvað varðar vinnu fyrir Play Air.

Flugfélagið birti lista yfir stærstu hluthafa í aðdraganda skráningar á First North en þar var meðal annars að finna, með rétt rúmlega eins prósents hlut, Innkaupafélagið ehf. Endanlegur eigandi þess félags er Theodór S. Sigurbergsson. Sá er einn þriggja eigenda endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton, en það hefur áritað ársreikninga auk aukatilkynninga Play.

Lögum samkvæmt ber áritunarendurskoðendum að vera óháðir viðskiptavinum sínum, bæði í reynd og ásýnd, og er sérstaklega tekið fyrir að þeir skuli ekki eiga viðskipti með bréf í skráðum félögum sem þeir endurskoða.

„Það gilda mismunandi reglur varðandi skráð og óskráð félög hvað varðar óbeina fjárhagslega hagsmuni eigenda og starfsmanna endurskoðunarfyrirtækja. Theodór ætlaði sér aldrei að vera lengi í hluthafahópnum og hefur þegar selt hlut sinn nú þegar félagið hefur verið skráð,“ segir Sturla Jónsson, meðeigandi Grant Thornton og endurskoðandi Play. „Það er ekkert grátt svæði fyrir skráninguna í þessu tilfelli, enda öruggir „Kínamúrar“ hér innanhúss og Theodór kom hvergi nærri neinni vinnu sem tengist Play.“