Ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir því að stimpilgjöld falli niður vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign. Þetta kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna.

Formenn stjórnarflokkanna kynntu yfirlýsinguna á blaðamannafundi í stjórnarráðinu á sjötta tímanum í dag. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði aðspurður að ekki væri búið að tímasetja þessa fyrirætlan um stimpilgjöld.

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að eignaskerðing vegna vaxtabóta verði hækkuð um 35% á árinu 2008.

„Jafnframt verður komið á húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti, fyrir einstaklinga 35 ára og yngri, til að hvetja til sparnaðar hjá þeim sem hyggja á fyrstu kaup eigin húsnæðis eða búseturéttar," segir í yfirlýsingunni.