Skipunartími Más Guðmundssonar seðlabankastjóra rennur út 20. ágúst næstkomandi. Staðan hefur enn ekki verið auglýst. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að í fjármálaráðuneytinu sé unnið að því að auglýsa hana. Á sama tíma er unnið að endurskoðun á lögum um Seðlabankann.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við blaðð skipta máli að það liggi fyrir að lögin séu til endurskoðunar þegar nýr skipunartími hefst, hvenær sem það verður.

Ólöf Nordal lögfræðingur er formaður nefndar um heildarendurskoðun laga um Seðlabankann. Hún segir starfið á byrjunarstigi. Nefndin hafi verið skipuð rétt eftir páska og hún fundað tvisvar. „Okkur ber að skoða lögin í heild sinni og yfirstjórn bankans er hluti af lögunum en við erum alls ekki komin á það stig,“ segir hún.