Matorka undirritaði fyrir rúmum mánuði fjárfestingarsamning við stjórnvöld vegna áætlana fyrirtækisins um að reisa 3 þúsund tonna fiskeldi uppi á landi við Grindavík. Samkvæmt samningnum fær fyrirtækið 426 milljóna króna ríkisaðstoð í formi afsláttar af sköttum og opinberum gjöldum. Ívilnanirnar gilda í allt að tíu ár frá því gjaldskylda myndast hjá fyrirtækinu.

Í greinargerð (e. Matorka Fact Sheet) sem forsvarsmenn Matorku skiluðu til atvinnuveganefndar fyrir skömmu kemur fram að fjárfestingarkostnaður verkefnisins hljóði upp á 1.400 milljónir króna. Árni Páll Einarsson, forstjóri Matorku, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að verið sé að leita að nýjum fjárfestum.

„Það gengur vel," segir Árni Páll. „Við erum komnir með eitt tilboð en við erum ekki að fara að loka þessu strax. Við erum búnir að ljúka fjármögnun fyrir hluta af þessu en stefnum á að verða langt komnir með þetta snemma í sumar."

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að hlutafjáraukningin sé upp á 6 milljónir dollara eða um 820 milljónir króna. Spurður hvort þetta sé rétt fjárhæð svarar Árni Páll: „Nú bara má ég ekki segja meira við fjölmiðla, þetta er í ákveðnu ferli sem við erum að vinna með Íslandsbanka."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .