Straumur fjárfestingabanki hefur ekki lokið við fjármögnun sjóðs sem ætlað er að kaupa höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) við Bæjarháls og hefur salan því ekki ekki gengið í gegn. Eftir því sem næst verður komist er málið á lokametrunum og reiknað með að fjármögnun ljúki á næstu vikum.

Straumur bauð 5,1 milljarð króna í húsið í nafni óstofnaðs félags í byrjun árs og var þá stefnt að því að klára söluna á fyrsta ársfjórðungi.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir alla þætti Plansins svokallaða, sem eigi að koma OR á réttan kjöl, vera umfram áætlanir að sölunni á OR-húsinu undanskildu. Samkvæmt Planinu er stefnt að því að selja eignir OR fyrir 10 milljarða króna frá í apríl 2011 og til loka árs 2016. Bjarni segist í samtali við Viðskiptablaðið telja að stutt sé í að salan gangi í gegn. Hann kallaði eftir því sjálfur í vikunni hvernig hún gengur.