Framkvæmdir við byggingu Húss íslenskra fræða hafa ekki verið slegnar út af borðinu heldur hefur þeim verið frestað þar til aðstæður batna í ríkisbúskapnum, að sögn Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Hann vill láta skoða aðra kosti til að sýna handrit úr safni Árna Magnússonar en í Þjóðmenningarhúsinu.

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, ræddi um húsið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun í skugga þess að fjarlægja þurfti handrit úr safni Árna Magnússonar frá 13. og 14. öld af sýningu í Þjóðmenningarhúsinu yfir í Árnastofnun. Handritin höfðu verið til sýnis í Þjóðmenningarhúsinu síðastliðin ellefu ár. Forstöðumaður Árnastofnunar sagði í fréttum RÚV í gær handritin ekki verða aftur til sýnis fyrr en Hús íslenskra fræða rísi.

Grunnur hefur verið tekinn að húsinu á milli hótels Sögu og Þjóðarbókhlöðunnar. Fjárveiting til byggingarinnar er hins vegar ekki á fjárlögum fyrir næsta ár.

Illugi sagði á Alþingi í morgun að legið hafi fyrir að ekki hefði verið hægt að ljúka byggingu Húss íslenskra fræða í tilefni af því að á þessu ári eru liðin 350 ár frá fæðingu Árna Magnússonar. „Auðvitað rétt að skoða alla möguleika til að sýna handritin,“ sagði hann.