Rétt rúmur helmingur fyrirtækja sem aðildar eiga að Samtökum atvinnulífsins (SA) gera ekki ráð fyrir að breytingar verði á starfsmannafjölda fyrirtækja þeirra á þessu ári. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar SA um stöðu atvinnumála og efnhagshorfur.

Í niðurstöðunum kemur fram að að stjórnendur eins af hverjum fjórum fyrirtækjum gera ráð fyrir að fækka starfsmönnum og rétt rúmur fimmtungur að þeim fjölgi.

SA segir um niðurstöðurnar að þegar þær eru vegnar eftir stærð fyrirtækja fæst að heildarfjöldi starfa á almennum vinnumarkaði verði óbreyttur milli ára.

Þá kemur fram að starfsfólki fjölgar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi en fækkar í fjármálaþjónustu, verslun og þjónustu og iðnaði.