Alþingi kemur saman til þingfunda eftir slétta viku en um hálfgerðan stubb er að ræða. Á dagskrá er afgreiðsla fjármálastefnu og afgreiðsla hinna nýju hlutdeildarlána sem ekki náðust í gegn fyrir sumarfrí. Útlit er fyrir að sníða þurfi ýmsa vankanta af síðarnefnda málinu til að það komist klakklaust í gegn hjá hluta stjórnarliða.

Stubburinn nú var hluti af samkomulagi um þinglok í júní. Efnahagsþrengingar vegna veirufaraldursins þýddu að forsendur fyrir fjármálastefnu og -áætlun voru foknar út í veður og vind og því nauðsynlegt að samþykkja nýja stefnu áður en tillaga um nýja fjármálaáætlun og fjárlög næsta árs verða samþykkt.

Sjá einnig: Lánin geti unnið gegn markmiðum sínum

Upphaflega stóð til að aðeins yrði fjármálastefnan tekin fyrir en á síðustu dögum þings fyrir sumarfrí bættust hlutdeildarlánin við. Frumvarpinu er ætlað að auðvelda aðgengi fyrstu kaupenda og tekjulágum að fasteignamarkaðnum með því að veita þeim kúlulán til tiltekins hlutfalls af verði íbúðar við kaup. Lánið er veitt á lægsta lausa veðrétti á móti lánum frá fjármálastofnun. Höfuðstóll þess er hlutfall af verði íbúðar og greiðist almennt upp við sölu eignar. Áætlað er að næstu tíu ár fari 4 milljarðar króna árlega í úrræðið úr ríkissjóði og að hámarki verði 400 slík lán veitt ár hvert.

Nokkur fjöldi umsagna barst við frumvarpið eftir að fyrstu umræðu lauk. Umsagnirnar leiddu í ljós að nokkur þörf var á því að fínpússa frumvarpið áður en það yrði að lögum. Velferðarnefnd þingsins sendi á mánudaginn út drög að breytingatillögum til umsagnaraðila. Umsagnarfrestur er til sunnudags en eftir það mun nefndin fullvinna breytingatillögur sínar.

Sjá einnig: Hrófli ekki við umfangi hlutdeildarlána

Meðal breytinga sem lagðar eru til í drögunum er að ekki verður lengur skylda að hlutdeildarlán séu veitt til kaupa á nýbyggingum, þótt það verði áfram meginreglan. Þá verður lánþega ekki lengur skylt að ráðstafa séreignarsparnaði sínum inn á lán til að hraða eignamyndun. Þá er einnig kveðið skýrt á um að vaxtaleysi lánsins skapi ekki tekjuskattskyldu hjá lántaka.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þrátt fyrir þessar tillögur sé ekki enn einhugur í stjórnarmeirihlutanum um að hleypa frumvarpinu í gegn. Innan úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins heyrist til að mynda efasemdaraddir um að frumvarpið tryggi nægilega jafnræði meðal kaupenda. Óljóst sé til að mynda hvernig úthlutunarreglur lánanna verði, það er hvort þeir sem bjóða í fasteign á fyrstu mánuðum ársins geti tæmt pottinn fyrir þá sem vilja kaupa seinna á árinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .