Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segir í viðtali við Bloomberg fréttaveituna að krónan komi til með að verða gjaldmiðill Íslands um ófyrirsjáanlega framtíð; að fasttenging við evru, pund eða dollar sé ekki á döfinni, þrátt fyrir orð fjármálaráðherra um hið gagnstæða. „Það eru ekki til neinar töfralausnir sem draga úr sveiflum og halda jafnt í stöðugleika," sagði Bjarni Benediktsson í viðtalinu. „Mismunandi lausnir munu fela í sér mismunandi áskoranir."

Líkt og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu , sagði Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, í viðtali við Financial Times í gær að hin fljótandi íslenska króna væri óviðunandi og að skoðað yrði að festa gengi hennar við gengi annarra gjaldmiðla, þá líklegast evruna eða breska pundið.

Í viðtali, sem birst hefur áskrifendum Bloomberg fréttaveitunnar, ítrekar forsætisráðherra gildi krónunnar í núverandi mynd enda gefi hún stjórnvöldum aukin tól til aðlögunar á erfiðistímum og því ljóst að ekki ríkir einhugur hvað þetta varðar innan ríkisstjórnarinnar.

Í viðtalinu rifjar Bjarni upp að krónan hafi reynst mikilvægur hlekkur í uppbyggingu efnahagslífsins á árunum sem fylgdu efnahagshruninu. Veiking krónunnar hafi til að myna valdið því útflutningsfyrirtæki hafi verið betur til þess fallin að leiða endurreisn efnahagslífsins sem hafi síðar gert Ísland að fýsilegri áfangastað fyrir ferðamenn.