Mikið hefur verið rætt um skuldasöfnun íslenskra heimila og til dæmis vakti svarta skýrslan frá Danske bank sérstaklega athygli á skuldasöfnun íslensku þjóðarinnar. Í morgunkorni greiningar Glitnis í dag er hinsvegar bent á að það eru ekki eingöngu íslensk heimili sem safna skuldum um þessar mundir heldur hafa skuldir norskra og danskra heimila einnig aukist hratt á síðustu árum svo hratt að það er til jafns við okkur á Íslandi og jafnvel meira.

Greining Glitnis bendir á að skuldirnar séu komnar upp í 210% af ráðstöfunartekjum heimilana hér á landi samanborið við 129% fyrir tíu árum síðan. Skuldir danskra heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er hærra en hér á landi og var þeirra hærri en hér á landi og námu 234% af ráðstöfunartekjum um síðustu áramót í samanburði við 136% fyrir tíu árum. Skuldir Norðmanna sem aldrei hafa verið þekktir fyrir annað en sparsemi og skíðagöngur námu um síðustu áramót 174% af ráðstöfunartekjum samanborið við 119% fyrir tíu árum síðan samkvæmt upplýsingum greiningar Glitnis.

Skuldir heimilanna á Norðurlöndum eru nú í sögulegu hámarki en lágir vextir og mikil og viðvarandi hækkun húsnæðisverðs hefur verið meginorsök skuldasöfnun heimilanna undanfarin ár að sögn greiningar Glitnis. Þá hafa lágtekjuhópar einnig aukið við skuldir sínar vegna aukins frelsis í lánaviðskiptum og bættum aðgangi að fjármagni.

Í Morgunkorninu segir að hærri skuldahlutföll hafa gert heimilin viðkvæmari fyrir sveiflum í vöxtum og húsnæðisverði og að það sé að vissu leyti áhyggjuefni hér á landi þar sem nú blasir við tímabil þar sem verðtryggðir vextir gætu farið hækkandi og verðbólgan er á uppleið á sama tíma og útlit er fyrir að húsnæðisverð fari að lækka.

Greining Glitnis segir að þó verði að hafa í huga þegar þessi þróun sé skoðuð að heimilin standa vel hvað varðar eigið fé og hafa í raun aldrei staðið betur í þeim efnum. Eignir þeirra í húsnæði og verðbréfum hafa vaxið umtalsvert á undanförnum árum og mun hraðar en skuldirnar og um síðustu áramót námu eignir heimilanna hér á landi um 670% af ráðstöfunartekjum.

Að lokum segir Greining Glitnis að niðursveiflan þurfi því að verða talsvert kröpp áður en hún sverfir verulega að heimilunum þar sem eignir þeirra að frádregnum skuldum námu um 2.400 milljörðum króna um síðustu áramót.