Marissa Mayer, sem í fyrra tók við sem forstjóri Yahoo, vann sér ekki inn vinsældir hjá starfsfólki fyrirtækisins þegar hún lét kynna þá ákvörðun að enginn mætti lengur vinna heiman frá sér. Allir starfsmenn þurfa að mæta á skrifstofur fyrirtækisins og vinna þar.

Í frétt á Business Insider segir að margir starfsmenn, einkum mæður, hafi tekið þetta óstinnt upp. Erfitt geti verið að mæta í vinnuna alla daga þegar þær þurfi einnig að sjá um lítil börn.

Í ljósi þess að Mayer er sjálf nýlega orðin móðir þá gæti einhver haldið að hún hefði samúð með aðstöðu mæðranna, en staða hennar innan fyrirtækisins er öllu þægilegri. Þegar hún eignaðist son sinn síðasta haust lét hún byggja barnaherbergi í skrifstofu sinni. Það er því lítið mál fyrir Mayer að mæta í vinnuna.

Í fréttinni er rætt við eiginmann konu sem hingað til hefur unnið heiman frá sér. „Ég velti því fyrir mér hvað myndi gerast ef konan mín myndi mæta í vinnuna með börn og barnapíu og koma þeim fyrir í næsta skrifstofubás.“

Ákvörðun Mayer um að banna heimavinnu er ekki úr lausu lofti gripin. Hún sagði í samtali við Business Insider á sunnudaginn að margir af þeim sem vinna heiman frá sér séu ekki sérstaklega duglegir og sumir þeirra hreinlega týnist í kerfinu. Fyrirtækið haldi áfram að greiða þeim laun án þess að fá nokkuð í staðinn. Önnur ástæða, sem líklega vegur þungt, er að hún og yfirstjórn fyrirtækisins vilja fækka starfsmönnum. Ef einhverjir starfsmenn segja upp vegna breytinganna losnar fyrirtækið við að reka þá.