Farice ehf, sem rekur tvo sæstrengi milli Íslands, Færeyja og meginlands Evrópu, tapaði 3,3 milljónum evra á fyrri helmingi ársins. Það jafngildir um 490 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins á tímabilinu var jákvæður um 616 þúsund evrur og er það viðsnúningur frá því á sama tíma í fyrra.

Hár fjármagnskostnaður hafði hins vegar neikvæð áhrif á rekstrarafkomuna. Ómar Benediktsson, forstjóri Farice, segir að styrking krónunnar gagnvart evrunni hafi hækkað reiknaðan fjármagnskostnað. Tekjur Farice eru í evrum, en stærstur hluti skulda í íslenskum krónum.

Arion banki á 40% í Farice, Landsvirkjun 30% og ríkissjóður 30%. Ómar segir aðspurður að það sé ekki endilega markmið eigendanna að þetta félag skili arði. "Þetta er náttúrulega mikið þjóðþrifafyrirtæki fyrir landsmenn og efnahagslífið,“ segir hann. Á meðan fjárstreymi fyrirtækisins sé jákvæð sé fyrirtækið sátt. Engar fjárfestingar eru framundan hjá Farice að sögn Ómars, enda segir hann núverandi sæstrengi duga að minnsta kosti næsta áratuginn.