*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 14. ágúst 2020 11:02

Ekki endilega mistök að opna landið

Aðalhagfræðingur Íslandsbanka tekur ekki undir að það hafi verið mistök að opna landið, hagfræðingar ættu að halda sig við hagfræði.

Alexander Giess
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, telur „vafasamt að gefa sér of einstrengingslegar forsendur“ þegar kemur að reikna kostnað sem hlýst af því að skikka ekki ferðamenn í sóttkví við komu til landsins. Líkur á aukinni smithættu vegna komu ferðamanna er ekki vituð nákvæmlega, er það í verkahring sóttvarnarsérfræðinga að greina frá því fremur en hagfræðinga.

„Við vitum einfaldlega ekki hvað opnun landamæranna breytir líkunum á smitum mikið. Mér finnst kollegar mínir sumir hverjir hafa verið að draga svolítið sterkar ályktanir á því hverju það myndi breyta frá núverandi stöðu að herða verulega á aðgerðum,“ segir Jón Bjarki. Hann bætir þó við að allar tilslakanir sóttvarna feli í sér einhverja aukna áhættu. Að hans mati vanti það hins vegar í umræðu hjá sumum hagfræðingum að sú áhætta er ekki vituð.

„Ég tel að það sé skynsamlegt fyrir okkur í faginu að halda okkur við efnahagsgreininguna. Þar með að gefa okkur ekki meiri eða minni líkur á smitum, umfram það sem sóttvarnaryfirvöld segja okkur,“ segir Jón.

Sjá einnig: Mistök að opna landið

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, greindi frá því í vikuritinu Vísbendingu að hann teldi stjórnvöld hafa ofmetið kosti þess að opna landið fyrir ferðamönnum. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði, tók í sama streng í viðtali við RÚV og sagði að það væri „mikil áhætta fyrir lítinn ávinning að hleypa fólki inn í landið,“ að minnsta kosti samkvæmt hennar útreikningum.

Ekkert endilega mistök að opna landið

„Ég get ekki tekið undir að það hafi verið mistök að ráðast í þá opnun sem átti sér stað 15. júní. Einfaldlega af því að — eins og sérfræðingar í þessum málum hafa bent á — það eru engin sérstök teikn á lofti að sú breyting eigi einhvern afgerandi þátt í hinni nýju bylgju,“ segir Bjarki. Hann bendir á að uppruni þeirra smita sem greinst hafa komi meðal annars frá Íslendingum sem hafa snúið heim og öðrum sem ekki geta talist ferðamenn.

Fyrr í vikunni sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að hann teldi skynsamlegast að allir færu í sóttkví við komuna til landsins, þar til tekist hefði að ná böndum á faraldrinum.

„Það sem við vitum ekki og verðum að forðast að draga of sterkar ályktanir um er hversu mikið líkur á smiti breytast við tiltekin skref. Þar hafa sóttvarnaryfirvöld ítrekað að þau eru enn að læra með hverri vikunni sem líður. Við hagfræðingar getum ekki sett okkur skör hærra hvað varðar þekkingu á því,“ segir Jón Bjarki. Bendir hann á að beinn ábati fyrir opnun landamæranna liggur nokkurn veginn fyrir. Frá miðjum júní út ágústmánuð gætu tekjur ferðamanna numið um 20 milljarða króna, kostnaðurinn gæti hins vegar „verið á gríðarlega breiðu bili.“

„Ég ætla ekki að fullyrða að það hafi verið besti kosturinn í stöðunni að opna. Ég tel hins vegar að óvissan sé alltof mikil til að draga þá ályktun að þetta hafi verið mistök, eins og sumir hafa haldið fram.“ Enn fremur telur Jón það gleymast að nefna þann ábata sem hlýst af skimum ferðamanna. Með því tekst sóttvarnaryfirvöldum að læra betur á veiruna, hvaðan hún berst og svo framvegis.