„Málið er statt í ráðuneytinu. Það er verið að vinna að því þar,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, í samtali við Vísi aðspurð hvort búið sé að taka ákvörðun um kaup á gögnum um Íslendinga sem eigi eignir í skattaskjólum.

Bryndís segir að skattrannsóknarstjóri geti ekki tekið ákvörðun um að kaupa gögnin upp á sitt einsdæmi þar sem embættið hafi ekki fjárheimildir til þess eða heimildir til þess að skuldbinda ríkissjóð til að greiða slíkt einhvern tímann seinna. „Það þarf aðkomu ráðuneytisins með einum eða öðrum hætti.“ Hún segist þó eiga von á að niðurstaða fáist í málið í ráðuneytinu innan tíðar.