Seðlabanki Íslands hefur ekki enn gengið að veði í danska FIH-bankanum sem lagt var fram þegar bankinn lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra 6. október 2008. Þar sem Kaupþing er nú í slitameðferð er það ekki mögulegt samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Staðan er því óbreytt frá því Seðlabankinn lánaði Kaupþingi þessa upphæð. Áfram er bankinn með veð í FIH og væntingar um fullar endurheimtur á láninu eru góðar þar sem rekstur FIH hefur gengið vel og verðmæti hans aukist. Í Morgunblaðinu 10. nóvember kom fram að bókfært eigið fé FIH væri helmingi hærra en upphaflegt veð Seðlabankans.

Almennt svar

Seðlabankinn vildi ekki svara því beint hvort gengið hefði verið að veðum í FIH þegar Viðskiptablaðið leitaði svara hjá bankanum. Almennt svar, sem Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri og upplýsingafulltrúi bankastjórnar, sendi, var að Seðlabankinn „hefur aðeins að litlu leyti gengið að þeim veðum sem lögð voru fram í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins“.

Hefði Seðlabankinn gengið að þessu veði, tæki hann undirliggjandi eign yfir, í þessu tilviki FIH-bankann. Skilanefnd Kaupþings hefur því full yfirráð yfir FIH og skipar stjórnarmenn „í góðu samstarfi við Seðlabanka Íslands“. Þar sem verðmæti FIH er metið hærra en andvirði lánsins til Kaupþings myndi skilanefndin frekar greiða lánið upp en að samþykkja að Seðlabankinn gengi að veðinu. „Engar tímasetningar hafa verið ákveðnar hvað þetta varðar,“ segir í svari Stefáns Jóhanns þegar spurt var hvenær áætlað væri að Kaupþing greiddi lánið til baka.