*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 18. október 2019 19:00

Ekki enn hægt að anda léttar

Forstöðumaður greiningar hjá Íslandsbanka segir ferðaþjónustuna ekki enn vera komna fyrir vind.

Ritstjórn
Virðisaukaskattskyld velta farþegaflutninga dróst saman um 29% á tímabilinu maí-júní á milli ára.
Haraldur Guðjónsson

Ferðaþjónustan hefur komið sterkari undan falli Wow air en hægt var að vonast eftir að mati Jóns Bjarka Bentssonar, forstöðumanns greiningar hjá Íslandsbanka. Hagstofan birti í dag skammtímahagvísa ferðaþjónustu í október.

Virðisaukaskattskyld velta á tímabilinu maí-júní 2019 samanborið við sama tímabil 2018 dróst saman um 13% milli ára. Af því dróst farþegaflutningar með flugi mest saman eða um 29%. Virðisaukaskattskyld velta ferðaskrifstofa og skipuleggjanda erlendis dróst saman um 11% og farþegaflutningur á landi dróst saman um 8%. Hins vegar stóð veitingasala- og þjónusta og rekstur gististaða í stað. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Í samræmi við greiningu Íslandsbanka

Jón Bjarki segir niðurstöðurnar í samræmi við greiningu bankanna og ekki margt koma á óvart í þeim málum.

„Svona við fyrstu sýn eru þessar tölur í samræmi við það sem við vorum að gera ráð fyrir að myndi eiga sér stað í greininni eftir að Wow hvarf af þjóðhagssviðinu. Að auki hafa einhver áhrif orðið af langdregnu vandræðum Icelandair með MAX vélarnar sem hefur orðið til þess að erfiðara hefur verið að stíga inn í þetta bil sem fall Wow skapaði.“

Þegar kemur að því að skýra af hverju virðisaukaskattskyld velta hafi ekki breyst milli ára hjá gististöðum, veitingasölum- og þjónustu nefnir hann helst þrennt.

„Það virðist vera annars vegar að hver ferðamaður er að dvelja hér lengur og hins vegar að það hafi verið töluverð tilfærsla úr Airbnb og öðrum sambærilegum gistimátum yfir í heilsárshótel, enn sem komið er bera hótelin sig nokkuð vel þrátt fyrir allt. Að auki er það þannig að ferðamenn sem eru að koma þetta árið eru að jafnaði með aðeins dýpri vasa“ segir Jón.

Þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi komið sterkari undan þessum fyrstu mánuðum eftir fall Wow air heldur en maður þorði að vona þá er erfiður vetur framundan í greininni. „Það er ekkert búið að býta úr nálinni með það hvernig fjöldi ferðamanna verður á næsta ári. Það verður klárlega að líða meiri tíma þangað til að óhætt sé að anda léttar með að greinin sé komin fyrir vind.“