Hversu lífseigur er dýrðarljóminn af Ólympíugullinu? Fréttavefur Reuters veltir þessu fyrir sér í dag og kemst að það þeirri niðurstöðu að það sé fráleitt sjálfgefið að sigur á Ólympíuleikunum færi sigurvegurunum fræknu frægð og fé til langframa.

Þeir sem geta reyna að koma ár sinni vel fyrir borð, svo sem eins og fimleikakonan Nastia Liukin, sem keppir fyrir Bandaríkin þó að faðir hennar og þjálfari hafi hlotið gullverðlaun á Ólympíuleikunum fyrir Sovétríkin fyrir réttum tuttugu árum síðan.

Liukin hefur hvorki fleiri né færri en fimmtán styrktaraðila, þar á meðal fyrirtæki á borð við VISA, og umboðsmann sem hyggst tryggja skjólstæðingi sínum auðsæld með auglýsingasamningum og fyrirsætustörfum.

Önnur slík er t.d. Yelena Isinbayeva, rússneski stangastökkvarinn, sem hefur gert auglýsingasamning við Toshiba sem metinn er á hátt í 100 milljónir króna, og sunddrottningin Stephanie Rice frá Ástralíu, sem grætt hefur stórfé á að auglýsa undirfatnað.

Fjölmiðlar skipta höfuðmáli

Markaðsfræðingurinn Peter Walshe, hjá Millard Brown, spáir því að þrátt fyrir að áhorf á Ólympíuleikana í Beijing hafi verið afskaplega mikið muni ekki fleiri stjörnur kvikna þar en á öðrum alþjóðlegum stórmótum. Mjög fáir muni öðlast alþjóðlega frægð.

„Þeir sem ná að slá í gegn gera það með því að standa sig afburðavel næstu ár í fjölmiðlum,” segir hann.

Verðlaunahafar þurfi að hafa upp á eitthvað aukreitis að bjóða, eigi þeir að ná varanlegri frægð og safna auði, svo sem áhugaverðan bakgrunn eða óvenjulegt útlit. Þannig geti t.d. íþróttamaður sem hafi þurft að berjast við sjúkdóma eða slæm ytri kjör til að svala metnaði sínum verið líklegri til að vekja athygli styrktaraðila og auglýsenda en þeir sem hafa alltaf hlaupið á beinu brautinni.

Ólympíukeppandi vinnur á kassa

Áhugi auglýsenda beinist einnig fremur að sumum íþróttagreinum en öðrum, t.d. er tennis, körfubolti og fótbolti vinsælar greinar hjá þeim aðilum, og í kringum Ólympíuleikana er sömu sögu að segja um sund og fimleika.

Aðrar íþróttagreinar vekja minni athygli auglýsenda, svo sem kraftlyftingar og glíma, og keppendur í þeim eiga gjarnan á brattann að sækja þegar falast er eftir stuðningi.

Reuters nefnir líka badminton og tiltekur Howard Bach, sem leikur í tvíliðakeppni í badminton fyrir Bandaríkin, en hann vinnur hlutastarf á afgreiðslukassa í Home Depot-vörukeðjunni til að eiga fyrir salti í grautinn.