Ekki er búist við að neinn kostnaður falli á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna innstæðureikninga Kaupþings en önnur staða blasir við í tilfelli Landsbankans.

Alþingi samþykkti á föstudagskvöld að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Í nefndaráliti 1. minnihluta utanríkismálanefndar Alþingis kemur m.a. fram að eignir Landsbankans eru metnar á um 1.000 milljarða kr. en jafnframt að mikil óvissa væri um það mat. Ríkið þurfi því að ábyrgjast greiðslur á 628 milljörðum kr. í lágmarkstryggingar vegna svokallaðra Icesave- reikninga Landsbankans.

"Eitthvað mun koma upp í á móti af eignum bankans en mikil óvissa ríkir um hve háar upphæðir sé þar um að ræða. Annað sem getur haft áhrif til íþyngingar ábyrgða ríkissjóðs er ef röð forgangskröfuhafa í eigur Landsbankans verður breytt, t.d. með dómi," segir í nefndarálitinu.

Þá segir í álitinu að  fram hafi komið að stjórnvöld hafi frá því á síðasta ári vitað af hættunni á því að innlán íslensku bankanna erlendis sem tryggð eru af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta gætu fallið á sjóðinn.

Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir höfðu því um eitt ár til að bregðast við og grípa til aðgerða.

Undir álitið skrifar einn þingmaður, Siv Freiðleifdsóttr.