Þýskir bankar hafa þurft að þola fjölmarga skelli vegna hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán.

Samkvæmt bandaríska blaðinu The Wall Street Journal standa þeir nú einnig frammi fyrir þeirri staðreynd að Íslandferðir hafa ekki verið til fjár.

Í frétt bandaríska blaðsins um lán þýskra banka til Íslands eru sögð til marks um hvernig þýskir bankar – jafnvel þeir sem hafa til þess eingöngu sinnt hefðbundinni inn- og útlánastarfsemi heima í héraði – hafi leitað heimshornanna á milli á leit að ávöxtun og þar með losna úr viðjum heimamarkaðar sem einkennist af mikilli samkeppni og lágri hagnaðarvon.

Samkvæmt gögnum frá Alþjóðagreiðslubankanum (BIS) þá höfðu þýsk fjármálafyrirtæki lánað Íslendingum 21,3 milljarða Bandaríkjadala í júní á þessu ári.

Fram kemur í umfjöllun Wall Street Journal að þetta hafi verið fjórðungur af öllu erlendu lánsfé Íslendinga og er upphæðin fimm sinnum meiri en tekin var af láni á Bretlandseyjum, en Bretar eru næst stærstu lánveitendur íslenska hagkerfisins. Það var því einsýnt að flóðbylgjan sem myndaðist þegar íslenska bankakerfið hrundi myndi ná til stranda Þýskalands.

Hún hefur þegar gert það. Eins og fjallað er um í Viðskiptablaðinu var fyrsti þýski bankinn sem nýtti sér 500 milljarða evra björgunarsjóð stjórnvalda í Berlín handa fjármálamörkuðum BayernLB.

Bankinn þurfti að afskrifa 2,6 milljarða evra á fyrri helmings vegna stöðutöku fjármálagerningum í bandarískum undirmálslánum.

Nú er komið á daginn að bankinn er með 1,5 milljarða evru stöðu á Íslandi og hugsanlega þarf að afskrifa stærsta hluta hennar.

Wall Street Journal hefur eftir Andrea von Schnunbein, sérfræðingi hjá matsfyrirtækinu Fitch í Frankfurt, að staða Ísland skipti máli og eðli málsins samkvæmt mun hún hafa áhrif á aðra þýska banka.

Ekki er ljóst hvaða þýsku bankar hafa lánað til Íslands þar sem að flestir þeirra greina ekki opinberlega frá til hvaða landa útlán þeirra fara og yfirvöld gefa ekki heldur út slíkar upplýsingar.

Eins og fram kemur í Wall Street Journal þá getur verið að einhverjir þeirra hafi dregið úr stöðu sinni á Íslandi áður en að hrunið átti sér stað eða að þeir hafi varið sig gegn mögulegu tapi.

Ástæða þess að þýskir bankar hafa leitað að beitarlöndum fyrir fé sitt í ríkjum á borð við Ísland er meðal annars rakin til þess hversu margar lánastofnanir starfa í Þýskalandi.

Um 2000 bankar og fjármálafyrirtæki – sem mörg hver eru í ríkiseigu – starfa á þýska markaðnum og hefur fjöldinn meðal annars leitt til þess að hagnaðarhlutfallið af starfseminni hefur verið lítið.

Mest hefur farið fyrir stóru einkabönkunum á borð við Deutsche Bank og Commerzbank á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. En hinsvegar hafa minni bankar einnig lagst í útrás, ef svo má segja, á undanförnum árum.

Um er að ræða lánastofnanir sem voru stofnaðar af stjórnvöldum til þess að sjá viðkomandi löndum innan þýska sambandslýðveldið fyrir fjármagni. Á undanförnum árum hafa sumar þeirra sótt í sig veðrið á alþjóðamörkuðum en eftir árið 2005 voru hirslur þeirra fullar af fé þar sem þær söfnuðu miklu fé fyrir það ár vegna þess að þá rann út ríkistrygging stjórnvalda á rekstri þeirra.

Eins og fyrr segir liggja ekki fyrir upplýsingar um hvernig lánasöfn þeirra dreifast á milli landa en í ljósi þess að þær hafa á heildina lánað Íslendingum mikið fé munu forráðamenn einhverja þeirra komast að því að ekki eru allar Íslandsferðir til fjár.