Atvinnuleysi hefur ekki verið minna hér á landi síðan árið 2008. Þetta kemur fram í Hagvísum Seðlabanka Íslands sem gefnir voru út í júní. Í maí voru 5,6% af áætluðum mannafla, 9.826 manns skráðir atvinnulausir. Það er í fyrsta sinn síðan árið 2008 sem skráður fjöldi atvinnulausra fer niður fyrir 10.000. Á þessu ári eingöngu hefur atvinnulausum fækkað um rúmlega 1.600 eða um 1,4 prósentustig.

Í takt við það sem búast má við

„Fjárfestingin og fjöldi fólks í vinnu tekur síðast við sér,“ segir Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, um þá þróun sem á sér nú stað. „Fyrst fjölgaði unnum stundum án þess að fólki í starfi fjölgaði á síðasta ári,“ segir Gylfi og bætir við að fjölgun starfa að undanförnu sé í takti við það sem búast má við í uppsveiflu eftir fjármálakreppu.

Aðspurður um hvað það er sem liggi að baki þessari þróun nefnir Gylfi niðurfellingar á skuldum fyrirtækja, endurskilgreiningu á eignarhaldi þeirra og að fjárfesting sé smám saman að eflast. Mannaráðningar komi í kjölfarið eftir að framleiðslan fer að aukast, eignaverð hækki og fjárfesting fari af stað eftir fjármálakreppuna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.