Gefnir voru út 699 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í apríl síðastliðnum, eða um 752 þegar leiðrétt er fyrir reglubundnum ártíðarsveiflum. Svo fáir hafa kaupsamningar ekki verið í einum mánuði síðan í maí 2020, og því virðist aðeins vera tekið að róast á fasteignamarkaði, að því er segir í nýrri mánaðarskýrslu HMS.

Mestur er samdrátturinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru 461 talsins miðað við árstíðaleiðréttar tölur en þeir hafa ekki verið færri síðan sumarið 2014.

Fjöldi íbúða til sölu eykst

Fram kemur að framboð íbúða til sölu hafi farið vaxandi frá því í febrúar síðastliðnum og tók mikinn kipp upp á við síðustu vikuna í maí. Í byrjun þessa mánaðar voru 595 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu en þær voru 503 í byrjun maí. Minnst fór framboðið í 437 íbúðir í byrjun febrúar síðastliðnum.

„Fjölgunin hefur verið hlutfallslega nokkuð meiri á meðal sérbýla en á meðal íbúða í fjölbýli. Þá hefur aukningin aðallega verið í eldri íbúðum, en framboð af nýjum íbúðum hefur haldist nokkuð stöðugt.“

Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur íbúðum til sölu einnig fjölgað en þar voru 243 íbúðir til sölu í byrjun júní samanborið við 212 í byrjun maí.

„Það eru því fleiri íbúðir að koma inn á markaðinn um þessar mundir en eru að seljast,“ segir í skýrslunni.

Metfjöldi íbúða sem seldust yfir ásettu verði

Hagfræðideild HMS segir að þó að enn virðist vera mikill eftirspurnarþrýstingur til staðar. Þrátt fyrir minnkandi umsvif var met slegið í apríl, annan mánuðinn í röð, þegar 54% íbúða á landinu seldust yfir ásettu verði.

Á höfuðborgarsvæðinu seldust 65% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði og 53% sérbýla. Á landsbyggðinni seldust 48% íbúða í fjölbýli og 32% sérbýla yfir ásettu verði. Í öllum tilfellum er um met að ræða.

Meðalsölutími á íbúðum sem seldar voru á höfuðborgarsvæðinu í apríl var 34,7 dagar og hefur ekki mælst jafn stuttur frá upphafi mælinga. Þar af tók aðeins 30,7 daga að selja íbúðir í fjölbýli en 49 daga að selja sérbýli. Stystan tíma tók að selja íbúðir á 30-40 milljónir króna eða að jafnaði 23 daga en það tók að jafnaði 26 daga að selja íbúðir á 40-50 milljónir og 43 daga að selja íbúðir sem seldust á yfir 80 milljónir.

Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var meðalsölutíminn 38,8 dagar og annars staðar á landsbyggðinni var hann 53,6 dagar en í báðum tilfellum var um met að ræða.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.