Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við erum einungis að búa til réttmæta mælistiku á notkun viðskiptavina.“ Segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. Eins og kom fram á VB.is fyrr í dag, þá mun Síminn byrja að mæla alla internetnotkun frá september næstkomandi. Verður því ekki lengur gerður greinarmunur á erlendu og innlendu niðurhali.

Gunnhildur segir að hingað til hafi neytendur á fjarskiptamarkaði ekki geta borið saman notkunina milli fjarskiptafyrirtækja vegna þess að fyrirtækin hafi mælt netnotkun ólíkt. Þannig hafi til að mynda erlent efni ekki verið eins mælt hjá Símanum og Vodafone. Þessi leið sem nú sé verið að feta sé ekki ný, heldur þekkist víða erlendis. Þá sé allt gagnamagn mælt á farsímanetinu, eins og viðskiptavinir Nova sem nýta 3G og 4G netið heima þekkja.

Gunnhildur segir að breytingin felist ekki einungis í því að innlenda niðurhalið verði nú mælt, heldur sé einnig verið að breyta þjónustupökkunum. Pakkarnir séu að þrefaldast til fimmtánfaldast á sama tíma og Síminn reiknar með að notkun meðalheimilis muni þrefaldast. Því ætti þetta ekki að hafa neikvæð áhrif á megin þorra viðskiptavina, eða 98% þeirra. „Þá verður að hafa í huga að hópur viðskiptavina getur nú valið sér annan pakka og minni og lækkað verðið. Þessi nýja mæling er sanngjörn mælistika, viðskiptavinum í hag. Hún er hreint ekki hugsuð sem falin leið til að hækka verð,“ segir Gunnhildur.