Vodafone hefur sent frá sér tilkynningu vegna fregna af hópmálsókn á hendur fyrirtækinu . Þar segir að Vodafone hafi ekki enn fengið formlega kröfu frá Málsóknarfélaginu og geti því lítið tjáð sig um meinta kröfu eða efni hennar. Félagið muni hins vegar taka afstöðu til málsins þegar og ef krafa um miskabætur kemur fram.

Þá segir einnig í tilkynningunni:

„Rétt er að ítreka að ráðist var á félagið, þótt varnir hafi ekki haldið voru þær til staðar. Þetta er því miður áhætta sem fyrirtæki á Íslandi þurfa að búa við og árásin án efa opnað augu margra annarra fyrirtækja fyrir þessari ógn sem stöðugt er að aukast. Vodafone brást við með því að draga lærdóm af árásinni, yfirfæra alla innviði og styrkja starfsemina á öllum sviðum og hyggjumst vera í fararbroddi í öryggismálum á næstu árum eins og vonandi önnur íslensk fyrirtæki, sbr. fréttatilkynningu um netöryggisvottun fyrirtækisins sem send var fjölmiðlum fyrr í vikunni.“