*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 13. ágúst 2017 09:02

Ekki fleiri ráðningar í Reykjavík

Hár launakostnaður og sterkt gengi krónunnar veldur því að íslensk fyrirtæki, hafa í auknum mæli hætt að ráða í störf hér á landi.

Ásdís Auðunsdóttir
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sífellt fleiri fyrirtæki hér á landi, sem eiga þess kost, hafa tekið þá ákvörðun að hætta að ráða í störf hér á landi vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir sterku gengi krónunnar. Þá hafa ýmis tæknifyrirtæki ákveðið að færa starfsemi sína í auknum mæli til útlanda.

Sérfræðingar hafa margir hverjir miklar áhyggjur af þróun mála og telja að með henni sé verið að grafa undan íslenskum tækni- og þekkingariðnaði. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir þróunina verulegt áhyggjuefni og að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs fari þverrandi.

Mörg fyrirtæki í vanda

Fjölmargir viðmælendur Viðskiptablaðsins að undanförnu hafa lýst því hvernig gengi krónunnar hefur haft neikvæð áhrif á rekstur og afkomu fyrirtækja þeirra, en meðal þeirra eru t.d. Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Virðingar og forstjóri Mentor sem og Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor. 

Tæknifyrirtækið Takumi hefur vakið töluverða athygli undanfarin misseri og opnað skrifstofur víðs vegar um Evrópu og í New York. Markmiðið var að vera með öfluga starfstöð hér á landi en að sögn Guðmundar Eggertssonar, eins stofnenda fyrirtækisins, hefur nú verið bakkað með þær áætlanir.

„Við erum með breskt móðurfélag og höfum fjármagnað okkur í pundum. Okkar tekjur eru í pundum, evrum og dollurum, og því er kostnaður við að hafa starfsfólk og reka skrifstofu sífellt meiri í þessum gjaldmiðlum með styrkingu krónunnar. Ofan á það finnum við fyrir mun meiri þrýstingi á launahækkanir hér heima en erlendis. Við höfum því ákveðið að allar frekari ráðningar verði í London, Berlín og New York, en ekki í Reykjavík,“ útskýrir Guðmundur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn tölublöð.

Stikkorð: Krónan Valitor Mentor Takumi