Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem stofnaði á dögunum nýjan stjórnmálaflokk, segir að fólk gangi til liðs við nýja flokkinn úr mörgum áttum. „Hópar fólks hafa lýst yfir stuðningi við framboðið, meðal annars fólk sem hefur starfað í öðrum stjórnmálahreyfingum og nú síðast hafa þeir sem hugðust bjóða fram Samvinnuflokkinn lýst yfir vilja til að ganga til liðs við okkur,“ skrifar fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins á Facebook síðu sinni.

Hann tekur þó fram að vegna fyrirspurna er þó rétt að geta þess að nýja frambðið hans mun ekki sameinast öðrum hópum, flokkum eða hreyfingum. „Það býður alfarið fram á eigin forsendum. Fyrr í dag var greint frá því að Björn Ingi Hrafnsson , sem var áður borgarfulltrúi Framsóknar, en hefur upp á síðkastið verið hvað þekktastur fyrir rekstur fjölmiðla, hygðist ganga til liðs við flokk Sigmundar Davíðs.

Sigmundur Davíð skrifar enn fremur að forsendurnar fyrir stofnun flokksins séu þær að: „Stofna stjórnmálaafl sem byggir baráttu sína á málefnum en ekki hagsmunum einstaklinga eða hópa innan flokka. Framboð sem ætlað er að starfa á þeim forsendum sem ég og samstarfsfólk mitt leituðumst við að gera í Framsóknarflokknum á árunum 2009-2016. Leita bestu lausna sama hvaðan þær koma og berjast svo af krafti fyrir því að gera þær að veruleika. Flokkurinn mun ekki geta verið allt fyrir alla og hann er ekki til þess ætlaður.“