Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA, segir að það sé mjög áhugavert að þrátt fyrir alla umræðuna um mikilvægi þess að draga úr vægi verðtryggingar hafi hið opinbera lítið sem ekkert gert í því augnamiði. „Það voru bankarnir sem fyrstir voru til að bjóða upp á óverðtryggð lán. Íbúðalánasjóður hefur ekki gert það ennþá en segist ætla að gera það á síðari helmingi þessa ár en alls er óvíst hvernig það mun ganga.“

Að mati Gísla á ekki að vera flókið að minnka vægi verðtryggingar og auka skilvirkni á fjármálamarkaðnum. „Sem dæmi má nefna á ríkið frekar að skulda verðtryggt en óverðtryggt. Það eykur til muna aðhald hjá ríkinu þegar stjórnmálamenn gera sér grein fyrir því að aukin útgjöld sem leiða til verðbólgu hafa bein áhrif á greiðslur ríkissjóðs. Þá þarf að auka skilvirkni á fjármálamarkaði, en verðmyndun á vöxtum til dæmis er ekki nægilega skilvirk. Hana mætti bæta til muna með því að taka aftur upp markað með vaxtaskiptasamninga. Það er gríðarleg bjögun á skuldabréfamarkaði vegna haftanna. Útlendingar eiga mjög mikið af stuttum ríkisskuldabréfum og ávöxtunarkrafan á þeim er jafnvel einu og hálfu prósentustigi lægri en stýrivextir Seðlabankans, sem undir eðlilegum kringumstæðum eiga að vera lægstu vextir í landinu þegar Seðlabankinn er í vaxtahækkunarferli.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.