Í nýjustu markaðspunktum greiningardeildar Arion banka kemur fram að beinn arður Íslendinga af raforkuframleiðslu sé afar rýr þrátt fyrir að ekkert land í heiminum framleiði nærri því jafn mikla raforku á mann. Endurspeglast léleg uppskera í þeirri staðreynd að Landsvirkjun, langstærsti raforkuframleiðandi landsins, hafi á 50 árum greitt samtals einungis um 15 milljarða króna í arð að núvirði.

Greiningardeild Arion banka segir þó að nú sé tækifæri til að snúa þróuninni viöð þannig að eigendur auðlindanna njóti beins ágóða. Bendir hún á að eftirspurn eftir grænni íslenskri orku hafi líklega aldrei verið meiri og fer hún vaxandi.

„Í nýtingarflokki rammaáætlunar eru nú virkjanakostir sem gætu framleitt um 9 terawattstundir (TWst) af raforku árlega og þar með aukið raforkuframleiðslu á Íslandi um u.þ.b. 50%. Um leið og velt er upp hvort ráðast eigi virkjanir þarf að spyrja: Hvert væri hagkvæmast að selja alla þessa raforku?“ segir í markaðspunktunum.

Sæstrengur, álver eða eitthvað annað?

Mikið hefur verið rætt um mögulega sæstrengslagningu til Bretlands undanfarið og einnig ný álver. Landsvirkjun áætlar að geta fengið u.þ.b. 80 Bandaríkjadali á MWst fyrir raforku um sæstreng og mögulega meira, en ráðgert er að flytja út 5 TWst árlega. Verði það raunin og áætlanir um kostnað virkjana í nýtingarflokki standast, verður hreinn hagnaður Landsvirkjunar og annarra orkuframleiðenda af sæstreng um 30 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Þá er gert ráð fyrir að orkan komi öll til vegna nýrra virkjana úr nýtingarflokki rammaáætlunar, en stór hluti þess sem yrði flutt út kæmi þó til vegna betri nýtingar þeirra virkjana sem þegar eru til.

Þá reiknar Landsvirkjun svokallaðan núvirtan meðalkostnað virkjanakosta og kemst greiningardeildin að þeirri niðurstöðu að m.v. þær tölur virðist ekki vera forsendur fyrir byggingu nýrra álvera hér á landi, því kostnaðurinn sé langt yfir því sem stóriðjan greiðir fyrir rafmagn í dag.

„Þá er einnig mögulegt að hvorki sæstrengur né álver skili þjóðinni sem mestum ábata af orkuauðlindum okkar heldur eitthvað allt annað. Aðalatriðið er ekki einungis að verkefni standist ávöxtunarkröfu heldur einnig að þau skili sem mestri arðsemi til eigenda íslenskra orkufyrirtækja – þjóðarinnar. Áhugi á orkuauðlindum Íslendinga hefur vaxið samhliða miklum ferðamannstraumi sem gerir ósnorta náttúru vafalítið enn verðmætari en áður, svo taka þarf einnig tillit til þess,“ segir jafnframt í markaðspunktunum.