Stjórnendur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vissu hverjir stóðu á bak við félagið Urriðahæð, sem keypti hlutabréf sjóðsins í Landsbankanum til nota í hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni.

Eigandi Urriðahæðar er Árni Harð­arson, stjórnarmaður í Alvogen, sem hefur ásamt Róbert Wessman lengi eldað grátt silfur við Björg­ólf Thor. „Við vissum hverjir stóðu á bak við félagið, en við töldum ekki forsvaranlegt annað en að selja bréfin,“ segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR. „Við höfðum afskrifað þessi bréf og töldum þau verðlaus. Við ætluðum ekki að taka þátt í hópmálsókninni, en vegna skyldna okkar við sjóðsfélaga töldum við rétt að selja eignina þegar okkur bauðst það.“