Í bráðabirgðamati frá Hafrannsóknarstofnun kemur fram að loðnustofnin sé langt undir mörkum gildandi aflareglu til að hægt sé að ráðleggja veiðar úr loðnustofninum.

Samkvæmt mælingum sem gerðar hafa verið í janúar er stærð hrygningarstofnsins um 64 þúsund tonn. Matið byggir á mælingum þriggja skipa daganna 13. til 25. janúar að því er segir á vef Hafrannsóknarstofnunar .

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gæti útflutningsverðmæti fyrir ríflega 18 milljarða tapast ef horft er til afla síðustu þriggja veiðiára. Vestmannaeyjar sem hafa fengið þriðjung aflans yrðu verst úti.

Segi stofnunin að þrátt fyrir erfiðar veðurfarsaðstæður hafi mæliskipunum þremur tekist með samstilltu átaki, auk tveggja leitarskipa, að gera heildaryfirferð frá Hvalbakshalla fyrir suðaustan land og þaðan norður um og suður fyrir Víkurál út af Vestfjörðum. Hafís hafi þó hindrað mjög yfirferð í Grænlandssundi.

Ný mæling hófst 1. febrúar síðastliðinn, þegar Polar Amaroq byrjaði yfirferð suðaustur af landinu, en tvö skip önnur koma inn í mælingarnar í dag, 3. febrúar og á morgun 4. febrúar, austan og vestan fyrir land, og munu mælingarnar standa yfir fram yfir miðjan mánuðinn hið minnsta.