*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 2. ágúst 2020 11:04

Ekki fyrirhugað að hækka heimildina

Óákveðið er hvort Icelandair ætlar sér að fullnýta 30 milljarða króna heimild til hlutafjárhækkunar eður ei.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að efni kjarasamninga félagsins við lykilstéttir séu ekki innherjaupplýsingar. Áætlanir félagsins gera enn ráð fyrir því að samningaviðræðum við lánardrottna og Boeing ljúki á áður tilkynntum tíma. Enn liggi ekki fyrir hvort félagið muni nýta hlutafjárhækkunarheimildina til fulls eður ei en ekki sé þörf á því að boða til hlutahafafundar að nýju til hækkunar á heimildinni.

Sem kunnugt er hefur staða félagsins, líkt og allra flugfélaga, verið þröng sökum samdráttar í farþegaflugi vegna veirufaraldursins. Félagið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung þessa árs í upphafi viku. Úr því mátti meðal annars lesa að tekjur af farþegaflugi á fjórðungnum hafi numið 9,4 milljónum dollara, andvirði tæplega 1,3 milljarða króna, en það er aðeins um 3,3% af tekjunum á sama tímabili í fyrra. Eilítil aukning var í fraktflugi en hún var að sjálfsögðu víðsfjarri því að vega upp á móti samdrætti á farþegahliðinni.

Í maí samþykkti hluthafafundur félagsins heimild til að bjóða út nýtt hlutafé fyrir allt að 30 milljarða króna. Áður en unnt yrði að leggja af stað í þá vegferð þurfti hins vegar að semja um kjör lykilsstarfstétta, við Boeing um úrlausn 737Max vandans og lánardrottna félagsins um meðferð skulda. Upphaflega stóð til að því lyki um miðjan júní en viðræður drógust á langinn. Flugfreyjur urðu í upphafi viku síðasta stéttin til að samþykkja kjarasamning en viðræðum við aðra lánardrottna og Boeing er ekki lokið.

„Við miðum enn að því að klára þessar viðræður í þessari viku,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Spurður að því hvort félagið myndi nýta sér alla milljarðana þrjátíu í fyrirhuguðu útboði sagði hann að ákvörðun lægi ekki fyrir um það. Ekki standi hins vegar til að boða til hluthafafundar að nýju til að óska eftir frekari hækkun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Icelandair