Þórður Friðjónsson, forstjóri NASDAQ OMX kauphallarinnar á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það sé ekki alveg gefið að það sé slæmt að skrá félög á markaði í dag, í því umróti sem nú ríkir á fjármálamarkaði; lækkandi gengi í kjölfar lausafjárþurrðar.

„[F]yrir fyrirtæki í hefðbundnum rekstri er ekki alveg gefið að það sé slæmt að skrá sig við þessar aðstæður. Það er mikilvægt fyrir fyrirtækin að ná í fjármagn, og það er kannski auðveldari leið að ná í fjármagn eftir þessum farvegi heldur en mörgum öðrum við svona aðstæður, þegar þrengir að hjá fjármálafyrirtækjum. Menn eiga ekki afgreiða þetta í huga sér eins og skot þó markaðurinn sé í lægð, heldur skoða fleiri kosti til sóknar í áhættufjármagn. Ég held að ef menn eru með gott verkefni, er kannski í þágu fyrirtækisins að ná í fjármagn inn á markaðinn og það kann að vera þegar þrengir um aðra fjármögnunarmöguleika, að það sé hagfellt að fara þessa leið. Það er víða til fjármagn, eins og sést á skuldabréfamarkaði."

Sömu rök gilda um First North hliðarmarkaðinn

Sömu rök færir Þórður fyrir því að fyrirtæki skrái sig á First North hliðarmarkaðinn, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, sem hefur farið tiltölulega hægt af stað.  „Það kann vel að vera að aðstæður á markaði gerir það að fýsilegum kosti, að skoða First North," segir hann. Í vor hefur kauphöllin áhuga á kynna markaðinn fyrir þeim fyrirtækjum sem eru líkleg til að skrá sig á markaðinn. Þau telja 20-30.

Á First North eru Century Aluminium, sem einnig er skráð á NASDAQ markaðinn, HB Grandi og Hampiðjan.

Stefnt er að því að skrá fjarskiptafélagið Skipti, móðurfélag Símans, á markað fyrir páska. Í ljósi óróleika á fjármálamarkaði hafa önnur félög frestað um tíma skráningum sínum, eins og hverfisteypufyrirtækið Promens í eigu Atorku og fasteignafélagið Landic Properties í eigu FL Group.