Ekki gera sömu mistök og ég! var yfirskrift á einu erindinu á viðburði Nýsköpunarnefndar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) í vikunni. Viðburðurinn var rafrænn og erindin fjölbreytt þar sem hindranir, valdefling og framtíðin í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi voru rædd. Skautað var yfir vegferð frá stærðfræðilíkani yfir á alþjóðamarkað, áskoranir við að koma vörum á markað og margt fleira.

Tilgangur fundarins var að vekja athygli á konum í nýsköpun og vegferð þeirra úr mismunandi áttum.

„Það viðrar alltaf vel fyrir nýsköpun og til að halda áfram fjölbreyttu og öflugu starfi innan FKA á tímum Covid var fundurinn rafrænn og við fengum að streyma frá Arion banka," segir Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og formaður Nýsköpunarnefndar FKA.

Þrjár af þeim fjórum konum sem fluttu erindi deildu reynslu sinni af því að stofna fyrirtæki úr margbreytilegu umhverfi og bakgrunni og sögðu frá vegferð sinni í fyrirtækjarekstri og nýsköpun.

Erindin á rafrænum viðburð FKA í tilefni Nýsköpunarviku voru eftirfarandi:

Alma Dóra Ríkarðsdóttir, viðskiptafræðingur og meistaranemi í kynjafræði var með erindi um verkefni sem hún hefur unnið fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um konur í nýsköpun. Erindi hennar heitir: Hindranir, valdefling og framtíðin í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi.

Margrét Vilborg Bjarnadóttir , stofnandi og stjórnarformaður PayAnalytics og dósent við University of Maryland fjallaði um vegferðina frá stærðfræðilíkani yfir á alþjóðamarkað.

Ragna Sara Jónsdóttir , stofnandi og framkvæmdastjóri hönnunarmerkisins Fólk, hvatti konur í erindi sínu til að breytum heiminum frá hugmynd til alþjóðlegs rekstrar.

Rakel Garðarsdóttir , stofnandi og framkvæmdastjóri húð- og hárvöruframleiðandans Verandi veitti góð ráð undir yfirskriftinni: Ekki gera sömu mistök og ég - Áskoranir við að koma vörum á markað.

„Einungis 1,4% af fjármögnun fjárfestingarsjóða fer til fyrirtækja sem stofnuð eru eingöngu af konum og 88% fjármagnsins til nýsköpunarfyrirtækja sem eingöngu eru stofnuð af körlum," segir Huld og bendir á að næstum jafn margar konur og karlar vilja gerast frumkvöðlar. „Ísland þarf á frumkvöðlum að halda!"

Soffía Haraldsdóttir, nefndarkona FKA.
Soffía Haraldsdóttir, nefndarkona FKA.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
„Nýsköpunarnefnd FKA varpar ljósi á mikilvægi kvenna í nýsköpun og það er mikilvægt að vera ekki með vannýtta uppsprettu hagvaxtar og atvinnusköpunar og missa af tækifærum á tímum sem þessum," segir Soffía Haraldsdóttir nefndarkona FKA.

Í Nýsköpunarnefnd FKA eru:

  • Huld Magnúsdóttir formaður, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
  • Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rannís
  • Ágústa Ýr Þorbergsdóttir, framkvæmdastjóri YR Ráðgjöf
  • Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi Icelandic Lava Show og sölustjóri hjá Microsoft á Íslandi
  • Soffía Haraldsdóttir, rekstrarþjálfi og eigandi First Class
  • Sólveig Eiríksdóttir, stofnandi Himneskt og Gló
  • Þórey Einarsdóttir, stjórnandi HönnunarMars og verkefnastjóri íslensku Hönnunarverðlaunanna

Nýsköpunarnefnd FKA
Nýsköpunarnefnd FKA
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hægt að hlusta á ofangreind erindi hér .