Hluthafafundur hefur verið boðaður hjá Tryggingamiðstöðinni 5. júlí. Fundurinn er boðaður að ósk Sunds hf. í kjölfar á sölu félagsins á 32,9% hlut í TM. Kaupandi hlutarins var Blátjörn ehf. sem er í eigu Sunds ehf. (49%) Hansa ehf. (24,5%), Novator ehf. (24,5%) og Hersis-ráðgjafar og þjónustu ehf. (2%). fer Blátjörn nú með um 38% hlut í TM.

Þar er gert ráð fyrir að þeir Jón Kristjánsson og Páll Þór Magnússon gangi út úr stjórn TM en þeir hafa setið þar fyrir hönd Sunds. Gert er ráð fyrir að Blátjörn tilnefni tvo nýja stjórnarmenn í stað þeirra.

TM, Sund og Landsbankinn hafa átt Fjárfestingafélagið Gretti saman en þar er í gangi hluthafasamkomulag um að ef einhver vilji ganga út þá geti hann hætt og fengið hlut sinn greiddann. Um nokkurn tíma hefur það verið ætlun TM manna að þeir gengju þar út og nú er það komið í formlegan farveg eftir skriflega ósk stjórnar TM þar um. Gert er ráð fyrir að það verði afgreitt á hluthafafundinum 5. júlí. Samkvæmt samkomulaginu eru tveir möguleikar við útgreiðslu hlutarins, annars vegar að fyrir hann sé greitt með peningum eða með því að deila út bréfum úr hlutabréfasafni Grettis og greiða þannig með undirliggjandi eignum. Helstu eignir TM eru í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka en þar á félagið 15,87% hlut en félagið bætti síðast við stöðu sína þar í janúar síðastliðnum. En einnig á Grettir hlut í Avion Group, Icelandic Group og Landsbankanum. Allt bréf sem hafa markaðsvirði þannig að eignaskipting ætti ekki að vera til vandræða.

TM á 31% hlut í Gretti sem er bókfærður á 5,5 milljarða króna samkvæmt uppgjöri 1. ársfjórðungs. Í samræmi við nýjar reglur er hluturinn færður jafn óðum á markaðsvirði þannig að ekki er gert ráð fyrir að óinnleystur gengishagnaður komi fram í bókum félagsins.