Bankasýsla ríkisins lagði fram í gær tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að stofnunin fái heimild til að selja alla eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka. Lagt er til að restin af eignarhlut ríkisins í bankanum verði seldur í nokkrum áföngum fyrir árslok 2023.

Í minnisblaði Bankasýslunnar með tillögunni er lagt til að fyrsti hluti sölunnar fari fram með tilboðsfyrirkomulagi. Slík sala færi fram á nokkrum dögum og myndi þátttaka einskorðast við fagfjárfesta. Almenningi yrði því ekki gert kleyft að taka þátt í fyrsta hluta sölunnar ef farið eftir tillögum Bankasýslunnar. Fram kemur í minnisblaðinu að þetta fyrirkomulag að tryggja hæsta verð en ókosturinn sé að það útiloki beina þátttöku almennings. Þó er tekið fram í minnisblaðinu að þátttaka lífeyrissjóða og verðbréfasjóða í tilboðsleiðinni tryggi óbeina þátttöku almennings.

Bankasýslan leggur jafn framt til að farin verði blönduð leið tilboðsfyrirkomulags og svokallaðrar miðlunarleiðar á síðari stigum sölu hlutabréfanna. Miðlunarleiðin felur í sér að Bankasýslan myndi gefa verðbréfafyrirtæki fyrirmæli um að selja ákveðinn fjölda bréfa á ákveðnu tímabili og hafa að leiðarljósi að raska ekki verðmyndun á markaði.

Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu í gær hafa stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði auk annarra fyrirferðarmikilla fjárfesta haldið að sér höndum síðustu vikur vegna væntinga um að fljótlega dragi til tíðinda af sölumálum ríkisins á það sem eftir stendur af eigninni í Íslandsbanka.