Innan bankageirans eru miklar væntingar til ferðaþjónustu og hóteluppbyggingar. Bankarnir gætu þó á næstu fimm árum þurft að horfa til breytinga á lánum til fyrirtækja í greininni ef vöxturinn dregst saman. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, sem fjallar um áhrif þess ef bakslag kemur í ferðaþjónustuna.

Starfsmaður eins viðskiptabankanna, sem þekkir vel til fyrirtækjaútlána, segir í samtali við Morgunblaðið að þegar greiningaraðilar spái fyrir um þróun í ferðaþjónustu sé oft gert ráð fyrir því að versta mögulega útkoman sé óbreytt ástand. Ekki sé gert ráð fyrir því að ferðamönnum fækki.

Hann bendir á að ef krónan fer að styrkjast, sem flestir vilja væntanlega, þá muni ferðalög til Íslands ekki vera jafn ákjósanlegur valkostur og áður. Einnig geti ýmsir óvæntir atburðir, svosem eldgos, dregið úr ferðamennsku.