Í núverandi spá Seðlabanka Íslands er ekki gert ráð fyrir frekari framkvæmdum á vegum Norðuráls við Helguvík en þess í stað er gert ráð fyrir þremur kísilverum. Þetta kemur fram í nýrri útgáfu Peningamála.

Í síðustu fjárfestingarspám bankans hefur verið gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við fyrsta áfanga álvers Norðuráls við Helguvík, ásamt því sem framkvæmdir hefjist við eitt kísilver.

Nú er gert ráð fyrir tveimur kísilverum til viðbótar á spátímanum en ekki er gert ráð fyrir álveri í Helguvík. Þessi breyting ein og sér dregur nokkuð úr umfangi stóriðjufjárfestingar á spátímanum. Fyrirsjáanleg aukning fjárfestingar vegna viðhalds og aukinna umsvifa við orkuöflun gerir það þó að verkum að fjárfesting eykst í stóriðju frá maíspánni, þegar litið er á tímabilið í heild.

Atvinnuvegafjárfesting í heild jókst um 15% frá fyrra ári á fyrsta fjórðungi ársins og er líkt og í maí búist við áframhaldandi kröftugum vexti á árinu, að því er fram kemur í Peningamálum. Gert er ráð fyrir hátt í fjórðungs vexti en í maí var búist við um fimmtungs vexti.