Eðlilegt er að líta fiskveiðiauðlindir Íslands sömu augum og Norðmenn líta olíuauð sinn. Hvor tveggja séu mjög arðbærar auðlindir og því beri að skattleggja þær samkvæmt því.

Þetta segir Rögnvaldur Hannesson, þjóðhagfræðingur og prófessor, í samtali við Morgunblaðið í dag.

„Ástæðan fyrir þessari skoðun er mjög einföld. Við getum deilt um hve umsvifamikið ríkið eigi að vera en við getum verið sammála um að ríkið þurfi að fjármagna burtséð frá því hversu mikil umsvif þess eru,“ segir Rögnvaldur.

„Við þessa fjármögnun finnst mér réttast að beita þeim sköttum sem valda minnstum skaða og að mínu mati hefur skattlagning á auðlindarentu ótvíræða kosti fram yfir skatt á tekjur og fjármagn. Nú er rétt að ég taki fram að ég missi engan nætursvefn þó svo að ég viti að einhverjir útgerðarmenn hirði auðlindarentuna. Hér í Noregi hafa verið stundaðar arðbærar fiskveiðar án þess að auðlindaskattur hafi verið lagður á sjávarútveginn. Útgerðarmenn hafa því fengið að sitja einir að arðinum og hafa margir hverjir notað hagnaðinn til þess að fjárfesta skynsamlega, t.d. í fiskeldi og þjónustuskipum fyrir olíuvinnslu. Þessar fjárfestingar hafa aukið fjölbreytni atvinnulífsins og stuðlað að blómlegum byggðum.“

Rögnvaldur segir ekki sama hvernig staðið sé að því að innheimta skatt af auðlindinni.

„Aðferðirnar sem núverandi ríkisstjórn hefur boðað í þessum málum sýnist mér að muni reynast atvinnugreininni ofviða. Það hefur hingað til ekki þótt góð latína að drepa gæsina sem verpir gulleggjunum,“ segir Rögnvaldur.

„Almennt hefur mér litist mjög illa á þær breytingar á fiskveiðikerfinu sem hafa verið til umræðu að undanförnu. Sér í lagi tel ég óráð að færa svo mikið vald til stjórnmálamanna sem tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Það býður hættunni heim þegar stjórnmálamenn taka að sér að úthluta aflaheimildum til gæðinga sinna. Ég skil hins vegar óánægjuna sem hefur verið uppi gagnvart auðlindarentunni og tel því rétt að skattleggja hana.“