Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagðist líta svo á að það fælust mjög vond tíðindi í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

,,Í fyrsta lagi hefði ég talið mikilvægt að ríkisstjórnin hefði á undanförnum vikum gert okkur og landsmönnum öllum grein fyrir því hvaða vanda við stöndum frammi fyrir. Þetta er búið að vera mikið umræðuefni og mikil gagnrýni verið á ríkisstjórnina fyrir að halda hlutunum svona þétta að sér og að koma núna fram, með stöðu ríkisfjármála þannig að það sé á 300 hundrað milljarða króna halli eða 215 milljarðar, sem kallar á mikla hörku í niðurskurði. Það eru 45 milljarðar sem er ríflega helmingi meiri en ríkisstjórnin hafði gefið til kynna. Það hafði verið talað um 20 til 25 milljarðar skömmu áður. Það eitt og sér er áhyggjuefni, að ekki sé hægt að treysta okkur né þjóðinni fyrir því í hve miklum vanda við erum í.”

Gylfi segir að þeir hafi verið komnir í það ferli að reyna að hraða vinnu við að endurskoða samninga og leggja grunn að nýjum samningum á opinbera sviðinu. Bæði þeirra og annar samninga. ,,Auðvitað vorum við að kalla eftir því hvað væri í bígerð hjá ríkissjóði og hvaða grunn við fengjum til að byggja á.

Útfærsla ríkisstjórnarinnar á því hvernig ætlunin er að mæta þessum 45 milljarða niðurskurði, sem við treystum okkur ekki til að gagnrýna umfangið á enda ljóst að 215 milljarða halli á ríkissjóði gengur ekki upp. Við erum ósátt með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að mæta þessu og það er augljóst að þessi útfærsla, sem kynnt er, verður gagnrýnd  harðlega. Við teljum þetta vera mjög varhugaverða leið að fara í útfærslu. Við sjáum ekki annað en að það verði að fresta öllum samtölum um kjarasamninga og endurskoðun þeirra væntanlega fram yfir áramót.

Það er ljóst að við munum verða í deilu við ríkisstjórnina næstu daga og vikur því það er ljóst að þetta er ekki sá grundvöllur sem treystum okkur til að byggja endurskoðun kjarasamninga á. Við höfum ekki haft neinn möguleika á að hafa neina skoðun á þessu að öðru leyti. Við höfum hvorki séð útfærslur né hvernig þetta á að fara fram. En að leggja þetta upp svona, að fara í almenna niðurfærslu  á kjörum þeirra sem verst standa í gegnum almannatryggingakerfið og fara í harkalegan niðurskurð á framkvæmdastiginu við þessar aðstæður. - Það er ýmislegt í þessu sem við teljum vera kollrangar áherslur og getum ekki notað sem grundvöll að einhverri sátt.”