Einstaklingar sem bera stjórnunarlega ábyrgð í félögum sem skráð eru í Kauphöll Íslands, þar með taldir stjórnarmenn, mega ekki eiga að baki feril sem geti lagt í hætt orðspor félagsins og dregið úr trausti á markaðnum.

Þetta kemur fram í svari Kauphallarinnar við fyrirspurn um það á hvaða forsendum Kauphöllin hefur efasemdir um hæfi Jóns Sigurðssonar til að sitja í stjórn skráðs félags. Greint var frá því í gær að Jón Sigurðsson dró framboð sitt til baka í stjórn N1 á þeirri forsendu að Kauphöllin efaðist um hæfi hans og myndi setja bréf félagsins á athugunarlista ef hann yrði kjörinn í stjórn.

„Í alvarlegustu tilvikum, hafi einstaklingur borið stjórnunarlega ábyrgð í félagi sem hefur brotið alvarlega eða með ítrekuðum hætti gegn reglum Kauphallarinnar, getur slíkt komið í veg fyrir að hlutabréf félags verði tekin til viðskipta nema sá einstaklingur hafi verið sviptur stjórnunarstöðu sinni hjá félaginu,“ segir í svarinu. Ákvæðið sem vísað er til  er ákvæði 1.1.18  og skýringargrein við það.

Þá segir að Jón Sigurðsson hafi verið forstjóri FL Group hf., sem síðar fékk nafnið Stoðir, frá lokum árs 2007 og þar til síðustu bréf FL Group hf. voru tekin úr viðskiptum í Kauphöllinni um mitt ár 2009. Samskipti við félagið hafi verið töluverð út af reglum Kauphallarinnar um upplýsingaskyldu og félagið verið beitt alvarlegum viðurlögum vegna mála sem komu upp í forstjóratíð Jóns.

Þá segir Kauphöllin að líða þurfi að lágmarki fimm ár frá því að Kauphöllinn hafi áminnt fyrirtæki fyrir alvarleg og ítrekuð brot gegn reglum þangað til að hann getur talist hæfur til stjórnarsetu. „Hvert mál er skoðað hverju sinni eftir alvarleika þess enda hafi viðkomandi aðili borið stjórnunarlega ábyrgð í félagi sem hafi brotið alvarlega eða með ítrekuðum hætti gegn reglum Kauphallarinnar.  Kauphöllin telur eðlilegt að miða við fimm ár að lágmarki í þeim efnum,“ segir í svari Kauphallarinnar.