Kínverskt efnahagslíf óx um 6,1% á síðasta ári og hefur hagvöxturinn í landinu ekki verið lægri síðan 1990. Var vöxtur landsframleiðslunnar þar með undir væntingum greinenda.

Þó eru merki um að VLF hafi náð sér á strik undir lok árs þegar væntingar fóru að glæðast um að samkomulag myndi nást við Bandaríkin í tolladeilum landanna, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um skrifuðu leiðtogar ríkjanna undir fyrsta áfanga samkomulagsins á dögunum.

Þannig nam hagvöxturinn um 6% milli október og desember á síðasta ári en iðnframleiðsla jókst um 6,9% í desember sem var umfram væntingar. Fjárfestingar í fasteignum og öðrum innviðum, jukust um 5,4% á árinu sem virðist benda til aukningar.

CSI 300 vísitalan í Shanghæ og Shenzen vísitalan hækkuðu um 0,14% eftir að tölurnar voru birtar ásamt því að gjaldmiðill landsins, Renminbi, oft vísað til sem Yuan, styrktist um 0,1% gagnvart Bandaríkjadölum, í 6.8651 á móti einum dal.

Harkalegar aðgerðir kommúnistastjórnarinnar juku á lýðfræðivandann

Á sama tíma fór fæðingartíðni landsins niður í 1,05%, sem er það lægsta sem hún hefur farið í sögunni, sem ekki boðar gott fyrir ríki sem sér fram á skort á ungu vinnandi fólki á næstu árum og áratugum.

Lýðfræðileg vandamál eru þó viðkvæmt umræðuefni í kommúnistaríkinu sem jók á vandann með því að framfylgja harkalegri stefnu um einungis eitt barn á konu með fóstureyðingum og öðrum aðgerðum í stórum stíl áratugum saman þó nú hafi sú stefna formlega verið lögð af.

Einnig dróst fjárfesting í iðnframleiðslu saman um 3,1% á árinu sem sýnir áhrif tolladeilnanna við Bandaríkin. Jafnframt jukust ráðstöfunartekjur í þéttbýli um einungis 5% á árinu, að teknu tilliti til verðbólgu, sem er einnig er sögulegt lágmark.

Loks dróst sala á fasteignum saman um 0,1%, ef miðað er við fermetra, sem er enn eitt áhyggjuefnið í hagkerfi þar sem húsnæðismarkaðurinn nemur um fjóðrungi af vergri landsframleiðslu, þó eins og FT bendir á, sú tala sé umdeild.