Smásölukeðjan Costco hefur haft hug á því að opna risaverslun á Íslandi og hafa stjórnvöld lýst yfir vilja til greiða fyrir því. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 að það gengi ekki að beygja reglur fyrir eina erlenda verslun heldur verði jafnt yfir alla að ganga. Þessu greinir RÚV frá.

Costco hefur áhuga á því að opna risaverslun og bensínstöð á Íslandi og leitar nú eftir því við ráðuneyti að fá undanþágur fyrir starfsemina. Costco vill flytja inn og selja ferskt bandarískt kjöt auk þess að selja lyf og áfengi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, sagði í fréttum RÚV á þriðjudag að hún sæi fyrir sér að þetta gæti gengið. Á meðan Costco sýndi þessu eins mikinn áhuga og þeir væru að gera þá væru stjórnvöld reiðubúin til að greiða úr þeim úrlausnarefnum sem fyrir hendi væru.

Guðrún Hafsteinsdóttir sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að jafnt verði yfir alla að ganga. „Að mínu mati verður ný verslun í Reykjavík, hvort sem það er bandarísk verslunarkeðju eða ekki, að fara eftir íslenskum lögum. Það er ekki hægt að beygja reglur eingöngu fyrir hana,“ segir Guðrún sem bendir jafnframt á að fylkin í Bandaríkjunum hafi til að mynda ólíkar reglur um áfengiskaup. Hún viti ekki betur en að Costco aðlagi sig að þeim reglum.

Guðrún segir það jafnframt koma sér spánskt fyrir sjónir ef stjórnvöld eru reiðubúinn að kollvarpa reglum fyrir erlenda verslunarkeðju. „Því að íslensk verslun hefur barist fyrir breytingum á kerfinu. Hafa kallað eftir breytingum á landbúnaðarkerfinu og fá að selja áfengi í verslunum. Og þá kemur það auðvitað spánskt fyrir sjónir að við séum tilbúin til að  kollvarpa öllu okkar kerfi af því að  bandarískur verslunarrisi vilji koma hingað.“