Starfsemi Íbúðalánasjóðs er ekki sjálfbær og viðskiptamódel hans mun ekki duga til þess að snúa orðnu tapi sem mun á endanum lenda á skattborgurum. Endurskipulagning sjóðsins dugar ekki til, að sögn Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

Bloomberg-fréttaveitan fjallar um stöðu Íbúðalánasjóðs í dag og segir í umfjöllun sinni ríkisstjórnina vera að leita leiða til að leysa úr vanda Íbúðalánasjóðs sem hafi aukist mikið um og eftir hrunið. Þá hafi sjóðurinn tapað háum fjárhæðum á lánveitingum sínum til banka og fjármálafyrirtækja. Vitnað er til þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs hafi verið aðeins 2,5% í júní og telji Landsbankinn að ríkissjóður þurfi að leggja sjóðnum til 100 milljarða króna til að koma rekstri hans á réttan kjöl.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, vildi ekki tjá sig um stöðu sjóðsins þegar Bloomberg-fréttaveitan leitaði eftir viðbrögðum hans.